Fimm liðsmenn úr HFR voru valin í landsliðshóp í hjólreiðum eftir ítarleg próf sem framkvæmd voru af UCI/World cycling center. Fyrra prófið fór fram fyrstu helgina í febrúar en eftir það tók við 6 vikna æfinga prógram sem endaði á öðru prófi. 28 manns þreyttu prófin og voru 16 einstaklingar svo valdir úr sem munu keppa á Smáþjóðaleikalunum í lok maí.

Frá HFR fóru Anton Örn Elvarsson, Ása Guðný Ásgeirsdóttir, Bjarki Bjarnason, Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir og Kristín Edda Sveinsdóttir. Anton og Ása Guðný koma til með að keppa í RR en Bjarki, Kolbrún og Kristín Edda í MTB.

Hópurinn hélt í æfingaferð til Aigle í Swiss 18.mars þar sem UCI hefur aðsetur en einnig taka þau þátt í mótum þar til að auka við keppnisreynslu sína.

Chris Kilmurray world Cup fjallahjóla þjálfari var með hópnum í 2 daga og Scott þann þriðja og þjálfuðu þeir hópinn sem mun keppa í fjallahjólreiðum. Þeir eru báðir þjálfarar á heimsmælikvarða og var hópurinn ofsalega ánægður með þjálfunina. Farið var í tækni æfingar, leiðarval, pump track brautir og fleira.

Aðstaðan til æfinga í höfuðstöðvum UCI er til fyrirmyndar, þar er Velodrome þar sem hægt er að æfa track hjólreiðar, fullkomið hjólaverkstæði, lyftingasalur, bókasafn, watta hjól, BMX og pump track brautir, veitingasala og svo auðvitað topp þjálfarar.

Í öllum lengri æfingum voru þjálfari og aðstoðar þjálfari sem hjóluðu með hópnum og svo annar þjálfari á bíl. Þetta veitir mikið öryggi og ótrúlega gott að geta sótt sér snarl í bílinn þegar hungrið sverfur að.

Hópurinn er í fullu fæði í UCI höllinni og aðstaðan í Mon Sejour heimavistinni er mjög fín, þvottavélar og þurrkari, á hverri hæð er sjónvarpsherbergi þar sem hægt er að slappa af og matsalur á fyrstu hæð. Hver fær svo sitt citybike til að ferðast á milli og um bæinn.

Óhætt er að segja að hópurinn komi uppveðraður heim, með fullt af nýrri þekkingu og marga kílómetra í lærunum. Það er einstakt og forréttindi að fá að taka þátt í svona verkefni og vonandi er þetta bara byrjunin á einhverju miklu stærra.