Þrjú ungmenni úr HFR kepptu í dag á Evrópumeistaramóti í götuhjólreiðum sem haldið er í Danmörku.

Kristín Edda Sveinsdóttir keppti í morgun ásamt 85 öðrum stelpum í juniorflokki. Þó nokkuð var um slys í brautinni sem var nokkuð hál en aðstæður buðu upp á rigningarskúra og rok. Kristín Edda náði að staðsetja sig vel í pelatoninu og hjólaði með fremsta hópi allan tímann. Nokkrar árásir voru gerðar en hópurinn var fljótur að loka þeim bilum sem náðu að myndast. Um 30 stelpur komu saman fremstar inn í endasprett og varð Kristín Edda númer 24.

Eftir hádegið kepptu þeir Sæmundur og Kristinn í hópi rúmlega 150 junior drengja. Enn hafði bætt í vindinn og það gekk á með ausandi skúrum. Keppnin fór mjög hratt af stað en íslensku strákarnir voru settir aftarlega á ráslínu. Fljótlega eftir start féll einn keppenda rétt fyrir framan Sæmund sem endaði líka í götunni. Hann fór á hjólið fljótt aftur en hafði misst af hópnum. Stuttu síðar varð annað slys rétt fyrir framan Kristinn sem varð til þess að hópur slitnaði frá pelatoninu og náði ekki að vinna sig upp í það aftur. Eftir tvo hringi af sex ákvað Sæmundur að hætta keppni vegna meiðsla og Kristinn lauk þremur hringjum.

Á morgun mun Heiðar Snær keppa í U23.