Síðastliðin 5 ár hefur HFR staðið fyrir æfingaferðum til Mallorca, en stór hluti æfingahópsins var við æfingar á eyjunni í Dymbilvikunni fyrr í apríl. Það er kærkomið að komast úr slabbinu og slarkinu sem fylgir íslenska hjólreiðavorinu í heita sjávargoluna og renna á vönduðum vegum í stórfenglegri paradís hjólreiðanna á Mallorca.  

Í ár, sem fyrr, var breiður hópur hjólreiðamanna mættur til að stunda hjólreiðar hver við sitt hæfi, krakkahópur, unglingahópur, keppnishópur karla og kvenna, og útsýnishópur og kaffihúsahópur. Allir fengu feikinóg fyrir sinn snúð af skemmtilegum og krefjandi hjólreiðum.

Sú nýbreytni var á að HFR réð til sín afar reyndan þjálfara, Sören Lilholt, fyrrum atvinnumann í hjólreiðum og þjálfari sterks liðs í U19 í Danmörku, hann er fyrrum keppandi í Tour de France (komst í grænu treyjuna) og keppti jafnframt 5 sinnum í Paris-Roubaix keppninni. Sören skipulagði æfingar fyrir flesta hópa, leiðbeinti okkur með klifurtækni, tækni í bröttum niðurleiðum osf, en sérstök áhersla var lögð á upprennandi unglinga og landsliðskonurnar okkar. Hjólreiðafólkið og þjálfarar eru reynslunni ríkari um æfingar, æfingatækni og hjólatækni. Kann félagið Sören Lilholt bestu þakkir fyrir skemmtilega daga á Mallorca. Á myndinn sést Sören ásamt unglingunum eftir 7 tíma hjólatúr um sléttur eyjunnar.

Við hvetjum hjólasamfélagið að kynna sér Mallorca sem áfangastað fyrir æfingaferðir, eyjan býður upp á náttúrufegurð, þægileg veður, og stórskemmtilegar og fjölbreyttar leiðir við allra hæfi.