Íslandsmót í Cyklocross fyrir keppnisárið 2018 var haldið um síðastliðna helgi í fallegu en brakandi köldu veðri. Keppt var í nýrri og skemmtilegri braut í Gufunesi. Hópur HFR-inga var mættur til leiks og spreytti sig á ísilögnu undirlaginu. Í unglingaflokki, U15 og U17, kepptu þau Steinar Þór sem varð fyrstur í U17, Matthías sem leiddi keppnina frá fyrsta hring og varð fyrstur í U15 drengja, Natalía sem var fyrst í U15 stúlkna og Bergdís Eva sem lauk ekki keppni. Í juniorflokki kepptu Agnar Örn, sem var fyrstur, og Bergþór Páll sem var annar. Í U23 flokkinum keppti Guðni Freyr sem var annar. Þess má geta að Gústaf í Tindi sigraði U23 flokkinn en var jafnframt fyrstur í mark af öllum keppendum. Í elite flokki var Ingvar Ómarsson fyrstur en okkar maður Guðmundur B. var í öðru sæti. Aðrir HFR-ingar stóðu sig einnig með prýði en við áttum menn í 4.-8. sæti auk annarra. Í kvennaflokki var Kristín Edda fyrst en hún fékk leyfi til að keppa í eliteflokki í stað U23 þar sem hún fluttist nú á nýju tímabili uppúr juniorflokki (U19). Anna Kristín var önnur en þær sigruðu Tindskonur örugglega.

Einnig var keppt í almenningsflokki. Þar var mættur Eyþór Ás sem er nýgenginn í HFR, og var fyrstur í juniorflokki. Í fullorðinsflokki var engin kona mætt til leiks en í karlaflokki var Gunnar Örn fyrstur. Keppendur voru almennt mjög ánægðir með daginn og ákveðið hefur verið að halda Íslandsmót í cyklocross að ári í sömu braut. Við vorum mjög ánægð með þátttöku og frammistöðu okkar fólks og þökkum þeim sitt framlag.